Handbolti

Klappað fyrir Íslandi í leikslok

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Pálmarsson reynir línusendingu á Ingimund Ingimundarson í leiknum í kvöld.
Aron Pálmarsson reynir línusendingu á Ingimund Ingimundarson í leiknum í kvöld. Mynd/AP

Guðjón Valur Sigurðsson sagði í samtali við Vísi eftir sigur Íslands á Makedóníu í kvöld að áhorfendur hefði klappað íslenska liðinu lof í lófa í leiksloka.

„Ég held að það sé óhætt að segja að það séu ekki mörg lið sem hafa fengið lófatak frá stuðningsmönnum Makedóníu í leikslok," sagði Guðjón Valur en Ísland vann frækinn sigur í Skopje í kvöld. Niðurstaðan var þriggja marka sigur Íslands á Makedóníu, 29-26, í undankeppni EM 2010.

„Það sem skóp þennan sigur í kvöld var að við mættum afar vel undirbúnir til leiks. Við vorum búnir að vinna heimavinnuna okkar," bætti Guðjón Valur við.

„Við lögðum leikinn vel upp og mér fannst vörnin byrja nokkuð vel með Björgvin öflugan í markinu. Við náðum löngum sóknum og spiluðu nokkuð agaðan sóknarleik. Við fengum reyndar nokkur tækifæri til að komast þremur mörkum yfir í fyrri hálfleik sem tókst reyndar í blálok hálfleiksins. En ég tel að ef það hefði tekist fyrr hefði leikurinn jafnvel spilast öðruvísi."

Makedónía komst aftur inn í leikinn í síðari hálfleik og náði forystunni um miðbik hálfleiksins.

„Mér fannst við þá alltaf vera með þá. Það sýndi sig líka í kvöld að þó svo að menn falli úr leik vegna meiðsla eru aðrir tilbúnir að koma inn í staðinn og taka sína ábyrgð. Þeir vilja sýna að þeir eiga heima í þessu liði."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×