Viðskipti erlent

Hlutabréfaaukning Debenhams fær dræmar undirtektir

Hlutafjáraukning verslunarkeðjunnar Debenhams hefur fengið dræmar undirtektir hjá núverandi hluthöfum og öðrum fjárfestum. Aðeins hafa selst rúm 30% af því aukna hlutafé sem stendur til boða.

Í umfjöllun um málið í RetailWeek segir að fjárfestum hafi verið boðin rúmlega 242 milljónir punda í nýju hlutafé, í opnunartilboði, en hingað til hafa þeir aðeins skráð sig fyrir rúmlega 73 milljónum punda. Áætlanir Debenhams ganga út á að afla 323 milljóna punda í nýju fjármagni á þessu ári.

Baugur átti 13% í Debenhams þegar Baugur komst í þrot. HSBC bankinn seldi þann hlut í apríl s.l. með miklu tapi.

Hinir nýju hlutir í Debenhams voru í upphafi boðnir á 80% af nafnverði en sem fyrr segir seldust aðeins rúm 30% af þeim. Afganginum eða 169 milljónum punda verður skipt upp á milli núverandi hluthafa keðjunnar.

Debenhams glímir við gríðarlegan skuldahala, eða tæplega milljarð punda, og segir forstjóri keðjunnar, Rob Templeman að hann vilji gjarnan losna við þá upphæð út úr bókhaldinu.

Hluthafafundur verður haldinn hjá Debenhams í dag þar sem reiknað er með að hluthafar samþykki fyrrgreindt opnunartilboð á nýju hlutafé.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×