Körfubolti

McGrady líklega úr leik hjá Houston

Tracy McGrady er enn og aftur kominn á meiðslalistann hjá Houston
Tracy McGrady er enn og aftur kominn á meiðslalistann hjá Houston NordicPhotos/GettyImages

Skotbakvörðurinn Tracy McGrady hjá Houston Rockets hefur væntanlega spilað sinn síðasta leik fyrir félagið á leiktíðinni.

McGrady tjáði ESPN það í nótt að hann þyrfti að gangast undir enn einn uppskurðinn á vinstra hné sínu og það þýðir að hann spilar væntanlega ekki meira með liðinu í vetur og vor.

Þetta er enn eitt áfallið fyrir meiðslum hrjáð lið Houston, sem hefur sjaldan náð að halda stórstjörnum sínum McGrady og Yao Ming saman heilum inni á vellinum undanfarin ár.

McGrady hefur verið svipur hjá sjón í vetur og er aðeins fjórði stigahæsti maður liðsins með 15 stig í leik og aðeins 39% skotnýtingu. McGrady hefur aðeins spilað 35 leiki með liðinu í vetur. Hann spilaði aðeins 66 leiki í fyrra, 71 leik árið á undan og 47 leiki þar áður vegna ýmissa meiðsla.

Hávær orðrómur var á kreiki í NBA í gær um að McGrady yrði jafnvel skipt til New Jersey Nets í skiptum fyrir Vince Carter, en ljóst er að ekkert verður úr því ef kappinn þarf að fara undir hnífinn.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×