Fótbolti

Barcelona og Real Madrid unnu bæði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Zlatan og félagar hans í Barcelona fagna marki hans í kvöld.
Zlatan og félagar hans í Barcelona fagna marki hans í kvöld. Nordic Photos / AFP

Barcelona og Real Madrid unnu bæði leiki sína í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld og eru því enn ósigruð á tímabilinu.

Zlatan Ibrahimovic og Gerard Pique skoruðu mörk Barcelona í 2-0 sigri á Malaga á útivelli.

Zlatan hefur því skorað í öllum deildarleikjum Barcelona til þessa á leiktíðinni sem er ótrúlegur árangur. Hann var reyndar á bekknum í kvöld en kom inn á sem varamaður á 29. mínútu fyrir Thierry Henry sem meiddist. Zlatan skoraði mark sitt tíu mínútum síðar.

Cristiano Ronaldo tókst þó ekki að skora þegar að Real Madrid vann 3-0 sigur á Tenerife á heimavelli. Karim Benzema skoraði fyrstu tvö mörk Real og Kaka það þriðja.

Pepe lék sinn fyrsta deildarleik með Real síðan í apríl í fyrra. Þá var hann dæmdur í tíu leikja bann fyrir að sparka í andstæðing.

Real Madrid og Barcelona eru bæði með fullt hús stiga eftir fimm leiki. Sevilla er í þriðja sæti með tólf stig en liðið vann 4-0 sigur á Athletic Bilbao á útivelli í dag. Renato, Negredo, Freddy Kanoute og Jesus Navas skoruðu mörk liðsins í dag.

Að síðustu gerðu Valencia og Atletico Madrid 2-2 jafntefli. Sergio Agüero kom Atletico yfir en þeir Pablo og David Villa komu Valencia yfir áður en fyrri hálfleik lauk. Maxi Rodriguez skoraði svo jöfnunarmark Atletico á lokamínútu leiksins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×