Viðskipti erlent

House of Fraser með tilkynningu vegna lánasamninga

Breska verslunarkeðjan House of Fraser hefur sent frá sér tilkynningu vegna orðróms um að keðjan uppfylli ekki lengur lánasamninga við viðskiptabanka sína. Segir þar að ekkert sé hæft í þessum orðrómi en hann hefur orðið til þess að margir telja yfirtöku Debenhams á keðjunni yfirvofandi.

House of Fraser er komið í umsjón skilanefndar Landsbankans en 34,9% hlutur í keðjunni var áður í eigu Baugs í gegnum Highland Group. Baugur átti raunar einnig umtalsverðan hlut í Debenhams þar til í lok mars s.l. að hann var seldur af HSBC bankanum með miklu tapi.

Í tilkynningunni segir að fjárhagsleg staða House of Fraser sé sterk. Reksturinn gangi umfram áætlanir og að reksturinn muni halda áfram að vaxa a.m.k. næstu þrjá mánuðina, að því er segir í umfjöllun RetailWeek um málið.

Fram kemur að í gær, 15. júní, hafi bankinn átt rúmlega 85 milljónir punda, eða tæpa 18 milljarða kr., í lausafé. Þar að auki ætti keðjan aðgang að 36 milljónum punda í viðbót.

„Þetta er nægilegt til að mæta öllum skuldbindingum í fyrirsjáanlegri framtíð," segir í tilkynningunni.

House of Fraser neitar því einnig að 62 af verslunum keðjunnar séu til sölu en fjölmiðlar í Bretlandi hafa gert að því skóna að Debenhams sé að kaupa þessar verslanir. Í tilkynningunni segir að keðjan vilji taka það skýrt fram að engar verslanir hennar séu til sölu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×