Fótbolti

Mancini væri til í að þjálfa Inter á ný

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Mancini er ekki ósáttur við forráðamenn Inter.
Mancini er ekki ósáttur við forráðamenn Inter. Nordic Photos/Getty Images

Roberto Mancini hefur loksins stigið fram og tjáð sig um veru sína hjá Inter en hann hætti þar eftir síðasta tímabil. Hann segist vera tilbúinn í að koma til baka yrði þess óskað.

„Ég er með samning við Inter næstu þrjú árin en félagið er með þjálfara. Hvað sem því líður væri ég meira en tíl í að taka aftur við ef ég yrði beðinn um það. Yrði ég hamingjusamur? Það er annað mál. Það getur allt gerst í fótbolta og þjálfarar taka oft aftur við liðum sem þeir voru reknir frá," sagði Mancini sem er ekki búinn að gleyma þeim tíma er hann spilaði með Sampdoria.

„Sampdoria er eina liðið á Ítalíu fyrir utan Inter sem ég væri til í að þjálfa. Það væri val hjartans að stýra Sampdoria."

Mancini segist ekki bera neinn kala til stjórnenda Inter og segist ekki sjá eftir þeim orðum sem hann lét falla í garð þeirra á sínum tíma.

Aðspurður hvort hann telji sig vera vinsælli en Jose Mourinho sagði Mancini.

„Ég hef ekki hugmynd um það. Ég þekki Mourinho ekkert sérstaklega vel. Það væri rangt af mér að tjá mig um slíkt," sagði Mancini en hvað með samskipti hans og forsetans, Moratti.

„Ég verð að þakka Moratti því hann gaf mér færi á að þjálfa Inter. Ég tel að það sé enn mikill vinskapur á milli okkar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×