Fótbolti

Milan enn að íhuga tilboðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri AC Milan.
Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri AC Milan. Nordic Photos / AFP
Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri AC Milan, sagði eftir sigur sinna manna á Fiorentina í gær að forráðamenn félagsins þyrftu tíma til að fara yfir tilboð Manchester City í Brasilíumanninn Kaka.

Tilboðið er sagt nema um 108 milljónum punda og fullyrt að heildarkostnaður þess nái hátt upp í 250 milljónir.

Kaka spilaði í gær og var ítrekað hylltur af áhorfendum.

„Auðvitað vona ég að Kaka verði áfram. Hann er mikilvægur leikmaður í okkar röðum," sagði Ancelotti eftir leikinn.

„Það er rétt að við höfum fengið mikilvægt tilboð í mikilvægan leikmann og það er því rétt að við tökum allan þann tíma sem við þurfum til að vega og meta tilboðið."

Fjölmiðlamenn á Ítalíu hafa verið duglegir að fylgjast með Kaka og túlka hverju einustu hreyfingu. Hann var sagður fara grátandi af æfingasvæði AC Milan í gær og að hann hefði faðmað leikmenn eftir leik, eins og að hann væri að kveðja þá.

„Það var mikið af jákvæðum tilfinningum í gangi í kvöld enda sýndu áhorfendur honum mikinn stuðning. En fjölmiðlamenn hafa verið að rýna of mikið í hlutina."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×