Körfubolti

Brynjar verður ekki með KR í kvöld

Brynjar Þór Björnsson
Brynjar Þór Björnsson Mynd/Daníel

Brynjar Þór Björnsson verður ekki í leikmannahópi KR í kvöld þegar liðið mætir FSu og freistar þess að vinna 16. leikinn í röð í Iceland Express deildinni.

Brynjar er nýkominn til landsins eftir að hafa verið á mála hjá Francis Marion háskólanum í Bandaríkjunum og er KR óneitanlegur góður liðsstyrkur.

Brynjar á verðugt verkefni fyrir höndum þegar kemur að því að vinna sér sæti í liði KR, sem hefur farið eins og stormsveipur um úrvalsdeildina í vetur.

"Brynjar er búinn að mæta á einhverjar þrjár æfingar hjá okkur og er bara að komast inn í kerfin og taktíkina okkar. Hann gerir sér alveg grein fyrir því að hann labbar ekkert inn í þennan hóp og verður að vinna fyrir sínu á æfingum á næstunni," sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR í samtali við fréttastofu.

Brynjar þekkir flesta leikmenn KR vel frá fyrri tíð og mun væntanlega nýtast KR vel þegar fram í sækir - ekki síst í úrslitakeppninni.

"Brynjar er leikmaður sem á það til að spila vel á mikilvægum augnablikum og gefur okkur ákveðinn töffaraskap. Hann þekkir líka strákana í hópnum vel og fellur vel inn í þann góða anda sem er hérna hjá okkur," sagði Benedikt.

Þrír leikir eru á dagskrá í Iceland Express deild karla í kvöld.

Leikur Þórs og Grindavíkur á Akureyri hefst fyrr en venjulega eða klukkan 17:30 og klukkan 19:15 eru tveir leikir - KR tekur á móti FSu í DHL Höllinni og ÍR fær nýliða Breiðabliks í heimsókn í Seljaskólann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×