Fótbolti

Mourinho: Aðdáendur munu elska Eto'o

Elvar Geir Magnússon skrifar
Jose Mourinho liggur ekki á skoðunum sínum.
Jose Mourinho liggur ekki á skoðunum sínum.

Jose Mourinho þjálfari Inter telur félagið muni gera góðan samning þegar það fær Samuel Eto'o frá Barcelona í skiptum fyrir Zlatan Ibrahimovic. Börsungar munu borga pening á milli og þá mun Alexander Hleb vera lánaður til ítalska liðsins.

„Ibra hefur alltaf lagt sig allan fram fyrir mig og fyrir félagið. Hann var samt aldrei elskaður af stuðningsmönnum. Þeir gráta það ekki að missa hann og taka Eto'o opnum örmum," sagði Mourinho.

„Við höfum misst frábæran leikmann en fengið annan frábæran í staðinn. Ég tel að við höfum náð mjög góðum samningi við Barcelona þar sem ég tel að verðmæti Eto'o sé ekki evru minna en verðmæti Ibra."

„Ibra var hreinskilinn og sagðist vilja fara til Barcelona. Hann sagði að hann myndi sakna mín og ég sagði það sama við hann. Barcelona er magnað félag og hann verður ánægður þar," sagði Mourinho sem segist ekki hafa ráðlagt sænska sóknarmanninum neitt sérstaklega.

„Ég sagði samt við hann að ef hann næði að vinna Meistaradeildina með Barcelona þá væri hann ekki að gera neitt rosalega merkilegt. Liðið hefur unnið titilinn tvisvar á þremur árum. Mér finnst erfiðar áskoranir skemmtilegar, ekki að gera eitthvað sem allir búast við."

Zlatan Ibrahimovic fer í læknisskoðun hjá Barcelona á mánudaginn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×