Fjórir grímuklæddir piltar slettu skyri með grænni málningu á kosningaskrifstofur Framsóknarflokksins í Kópavogi og Sjálfstæðisflokksins í Ármúla í dag. Fyrr í dag var ráðist inn á kosningaskrifstofu Samfylkingarinnar í verslunarmiðstöðinni Firðinum í Hafnarfirði og mjólkurafurðum slett yfir auglýsingaefni og húsbúnað. Þetta var rétt eftir klukkan ellefu.
Í hádeginu var grænleitum vökva skvett úr fötum á rúður og kosningaskilti á kosningaskrifstofu Framsóknarflokksins við Digranesveg í Kópavogi. Þorsteinn Húnbogason sem var á staðnum telur að um græna málningu blandaða í vatn og skyr hafi verið að ræða.
„Þeir höfðu nú alveg getað komist inn en þeir hafa jafnvel ekki fattað að láta rennihurðina opnast," sagði Þorsteinn kíminn í samtali við fréttastofu.

Þá var grænu blöndunni slett á kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins við Ármúla eftir klukkan eitt í dag. Þar komust fjórmenningarnir inn og var afar sóðalegt um að litast á skrifstofunni, að sögn fréttamanns fréttastofu.