Þingkonan Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem lenti í þriðja sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir skömmu, skýtur föstum skotum á forseta ASÍ, Gylfa Arnbjörnsson, vegna ásakana um að hann hefði rekið Framsóknakonuna Vigdísi Hauksdóttur fyrir að vera í framboði.
DV sagði fyrst frá málinu en þar var greint frá því að Vigdísi hafi verið gert að hætta störfum sem lögfræðingur hjá ASÍ vegna þess að hún leiddi lista Framsóknarflokksins í Reykjavík. Henni þótti ómaklega að sér vegið enda var fyrir karlmaður sem var í framboði fyrir Samfylkinguna en hann tók sér launalaust leyfi, þó hann hafi haldið starfinu hjá ASÍ, ólíkt starfssystur sinni.
Ragnheiður skefur ekki utan af því og skrifar á bloggsíðu sína:
„Framkoma ASÍ forsetans er svo valdsmannsleg og hrokafull að það er með eindæmum. Ég tel það verulegt áhyggjuefni að einstaklingum sé mismunað með þessum hætti og velti fyrir mér hæfni forystunnar til ákvarðanatöku almennt þegar slíkt blasir við."
Ragnheiður gagnrýnir Gylfa fyrir að mismuna þarna framsóknarkonu og samfylkingarkörlum og skrifar ennfremur á síðu sína: „Ef þú ert karl á lista Samfylkingarinnar og hugsanlega ekki í mögulegu þingsæti þá er í lagi að fá launalaust leyfi hjá ASÍ og taka þátt í kosingabaráttu og koma aftur til vinnu að kosningum loknum."
Hún segir að slíkt hið sama sé ekki í boði sé maður framsóknarkona sem leiði fyrsta sætið í Reykjavík. Ragnheiður skýtur svo sérlega fast á Gylfa þar sem hún telur hann búa yfir ótrúlegri pólitískri spádómsgáfu:
„ASÍ forsetinn segir að ekki sé að því fundið að starfsmenn ASÍ sinni pólitísku starfi og jafnvel er það talið fólki til framdráttar sem er nú umhugsunarefni út af fyrir sig en um framsóknarkonuna segir hann jafnframt " ..þegar hins vegar svo er komið að fólk er farið að leiða lista og á þingsæti víst er rétt að leiðir skilji " ...mikið er vald hans og máttur að geta nú mánuði fyrir kosningar kveðið upp úr með þessum hætti um kosningar í Reykjavík."
Að lokum spyr Ragnheiður einfaldlega: Þú hlýtur að vera að grínast, Gylfi?
Pistil Ragnheiðar má lesa hér