Handbolti

Anna Úrsúla: Var upp á líf og dauða

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Karen Knútsdóttir tekur hér skot að marki Austurríkis í dag.
Karen Knútsdóttir tekur hér skot að marki Austurríkis í dag. Mynd/Anton

Anna Úrsúla Guðmundsdóttir átti sannkallaðan stórleik er Ísland vann í dag sigur á Austurríki, 29-25, í undankeppni EM 2010.

Hún fór mikinn í íslensku vörninni, sér í lagi í fyrri hálfleik, og skoraði fjögur mörk í leiknum. Ísland var með níu marka forystu í hálfleik, 19-10, en missti þá forystu í fjögur mörk í síðari hálfleik.

„Þetta var mjög góður fyrri hálfleikur hjá okkur sem við hefðum mátt fylgja betur eftir í þeim síðari," sagði Anna Úrsúla. „En þetta hófst sem betur fer enda leikur upp á líf og dauða fyrir okkur. Ef við ætlum okkur að vera með í þessari keppni þá urðum við að vinna þennan leik. En við náðum líka að sýna að við eigum fullt erindi í þessi lið sem við erum að mæta."

Hún segir fyrri hálfleikinn standa upp úr. „Hann var það fáránlega góður hjá okkur að við eigum að taka hann með okkur í næstu leiki. Ég veit svo sem ekki hvað klikkaði hjá okkur í seinni hálfleik. Þær breyttu um varnarleik og við vorum svolítið lengi að kveikja á því."

„En á meðan við spilum svo góða vörn eins og við gerðum í fyrri hálfleik erum við bara hrikalega góðar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×