Enski boltinn

Xabi Alonso vill fara frá Liverpool - búinn að tala við Benítez

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xabi Alonso, leikmaður Liverpool, vill komast heim til Spánar.
Xabi Alonso, leikmaður Liverpool, vill komast heim til Spánar. Mynd/AFP

Xabi Alonso hefur tjáð Rafa Benítez, stjóra Liverpool, að hann vilji fara frá Anfield. Real Madrid hefur sýnt spænska miðjumanninum mikinn áhuga og vonast nú til að Xabi Alonso takist að sannfæra Benítez um að selja sig til Madridborgar.

Liverpool hefur þegar hafnað 27 milljón punda boði Real Madrid í Alonso en Real hefur þegar eytt meira en 150 milljónum punda í leikmenn eins og Cristiano Ronaldo og Kaka og buddan hefur því lést mikið.

Heimildarmenn Guardian segja að Benítez sé einungis tilbúinn að selja Alonso fyrir 30 milljónir punda eða meira.

Xabi Alonso átti mjög gott tímabil með Liverpool og var kosinn leikmaður ársins af stuðningsmönnunum. Hann er lykilmaður á miðri miðjunni þar sem Liverpool hefur ekki alltof marga leikmenn í sínum herbúðum.

Alonso á samt enn þrjú ár eftir af samningi sínum og verður því að treysta á að Liverpool sé tilbúið að selja sig ætli hann að fá að spila með Real Madrid.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×