Fótbolti

Messi-áhrifin úr sér gengin hjá Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og félagar töpuðu öðrum leiknum í röð.
Lionel Messi og félagar töpuðu öðrum leiknum í röð.

Velgengni Argentínumannsins Lionel Messi hjá Barcelona hefur verið engu lík en um helgina gerðist það í fyrsta sinn að Barcelona-liðið tapaði leik þar sem Messi skoraði. Messi skoraði nefnilega eitt marka Barca í 3-4 tapi fyrir Atletico Madrid á útivelli í gær.

Fyrir leikinn um helgina var Messi búinn að skora í 50 keppnisleikjum fyrir Börsunga og hafði liðið unnið 44 þeirra og gert 6 jafntefli. Af þessum 50 leikjum voru 35 í deildinni, 11 í Meistaradeildinni og 4 í bikarkeppninni.

Það leit vel út fyrir toppliðið þegar Lionel Messi kom þeim í 2-0 á 30. mínútu leiksins en tvö mörk frá Úrúgvæanum Diego Forlan og önnur tvö frá landa Messi, Sergio Agüero, tryggðu heimamönnum í Atletico ótrúlegan 4-3 sigur.

Barcelona hefur nú tapað tveimur leikjum í röð í spænsku úrvalsdeildinni, 1-2 á móti nágrönnunum í Espanyol og svo 3-4 á móti Atletico Madrid um helgina. Fram að þessum tveimur ósigrum hafði Barcelona leikið 22 deildarleiki án þess að tapa og unnið 19 þeirra.

Lionel Messi hefur alls skorað 26 mörk fyrir Barcelona á tímabilinu þar af 17 þeirra í spænsku deildinni. Hann er eins og er þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar ásamt Diego Forlan en aðeins Samuel Eto'o hjá Barca (23 mörk) og David Villa hjá Valencia (19 mörk) hafa skorað meira en Messi í deildinni í vetur.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×