Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur birt á heimasíðu forsetaembættisins átta af þeim sautján bréfum sem Rannsóknarnefnd Alþingis fékk send. Segir á vefsíðu forsetans að þannig vilji hann koma til móts við óskir og umræður í samfélaginu. Þessi bréf séu til manna sem látið hafa af embætti auk tveggja annarra einstaklinga.
Hin bréfin níu eru öll til þjóðhöfðingja eða æðstu forsvarsmanna ríkja sem enn eru í embætti. Forsetinn segir að birting slíkra bréfa fáeinum misserum eða árum eftir að þau voru send væri algjör stefnubreyting í samskiptum Íslands við önnur ríki og ekki í samræmi við þær siðareglur sem gilda í samskiptum ríkja. Í þeim ríkjum sem Ísland hafi helst samstarf við eru lög og reglur sem takmarka mjög eða beinlínis hindra birtingu slíkra bréfa eða gagna fyrr en eftir langt árabil.
Á meðal þeirra bréfa sem voru birt eru bréf til Björgólfs Thors Björgólfssonar, fyrrverandi kjörræðismanns Íslands í Pétursborg, Jiangs Zemin, fyrrverandi forseta Kína, bréf til Bills Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, og bréf til Als Core, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna.
Innlent