Körfubolti

Hægðu á Nick og Pál Axel en réðu ekkert við Brenton

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brenton Birmingham skoraði 48 af 88 stigum Grindavíkur í síðasta leik á móti Snæfelli.
Brenton Birmingham skoraði 48 af 88 stigum Grindavíkur í síðasta leik á móti Snæfelli. Mynd/Daníel

Grindavík og Snæfell mætast í kvöld í fyrsta leik liðanna í undanúrslitaeinvígi þeirra í Iceland Express deild karla. Leikurinn fer fram í Grindavík, hefst klukkan 19.15 og verður í beinni sjónvarpsútsendingu á Stöð 2 Sport.

Snæfell vann síðasta leik liðanna með einu stig í Hólminum, 89-88, fyrir aðeins rúmum þremur vikum og þar tókst þeim jafnvel að halda aftur af Nick Bradford og Pál Axel Vilbergssyni eins og þeim gekk illa að stoppa Brenton Birmingham. Framlag þessara lykilmanna Grindavíkur mun örugglega ráða miklu um úrslit einvígisins í ár.

Brenton Birmingahm var með 48 stig á 38 mínútum og úr aðeins 23 skotum í umræddum leik þar sem hann hitti meðal annars úr 9 af 13 þriggja stiga skotum sínum. Brenton gerði 55 prósent stig Grindavíkur í leiknum og allar þriggja stiga körfur liðsins nema þrjár.

Þeir Páll Axel Vilbergsson og Nick Bradford voru hinsvegar aðeins með 14 stig saman þar sem 11 af 16 skotum þeirra misheppnuðust. Nick Bradford nýtti aðeins 2 af 8 skotum sínum og var með jafnmargar villur (4) og stig í þessum leik. Þeir Páll Axel og Bradford skoruðu saman 39,2 stig að meðaltali í hinum deildarleikjum sínum í vetur.

Nick Bradford á annars góðar minningar frá einvígum sínum með Keflavík gegn Snæfelli. Í bæði skiptin vann Keflavík 3-1 í lokaúrslitum og kappinn fékk að lyfta Íslandsmeistarabikarnum. Í síðasta einvígi hans við Snæfell í lokaúrslitunum 2005 var Nick með 23,0 stig, 12,5 fráköst og 6,3 stoðsendingar að meðaltali í leik og var kosinn besti leikmaður úrslitanna.

Flest stig í leik í deildarleikjum Grindavíkur og Snæfells í vetur:

1. Brenton Birmingham, Grindavík 33,0

2. Sigurður Þorvaldsson, Snæfell 23,0

3. Lucious Wagner*, Snæfell 22,0

4. Jón Ólafur Jónsson, Snæfell 17,0

5. Arnar Freyr Jónsso, Grindavík 16,0

6. Hlynur Bæringsson, Snæfell 15,0

7. Páll Axel Vilbergsson, Grindavík 14,0

8. Þorleifur Ólafsson, Grindavík 10,0

9. Helgi Jónas Guðfinnsson, Grindavík 8,0

10. Slobodan Subasic, Snæfell 7,0

*Spilaði aðeins annan leikinn






Fleiri fréttir

Sjá meira


×