Fótbolti

Benzema: Ég verð áfram hjá Real

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Karim Benzema á æfingu með Real Madrid.
Karim Benzema á æfingu með Real Madrid. Nordic Photos / AFP
Karim Benzema segir ekkert hæft í þeim sögusögnum um að hann sé á leið frá spænska stórveldinu Real Madrid en hann hefur verið orðaður við Manchester United að undanförnu. Benzema kom til Real frá Lyon síðasta sumar en þá reyndi Alex Ferguson, stjóri Manchester United, að fá hann í raðir félagsins. Hann er enn sagður áhugasamur um að fá kappann nú í sumar. Franski framherjinn hefur lítið fengið að spila á tímabilinu og skorað einungis sjö mörk í 24 leikjum með Real. „Ég tel ekki að fyrsta tímabili mitt hjá Real hafi verið misheppnað. Ég hefði gjarnan viljað að þetta hefði gengið aðeins betur fyrir sig en ég fékk að spila,“ sagði Benzema við franska fjölmiðla. „Ég kom ekki til Real til þess að vera hér í aðeins eitt tímabil. Ég gerði sex ára samning og nýt trausts hjá öllum hjá félaginu.“ „Ég sé ekki eftir því að hafa ekki farið til Manchester United. Mig dreymdi aðeins um Real Madrid. Ég lærði mikið af þessu tímabili og ég vissi ekki áður hvernig það væri fyrir mig að spila í öðru landi. Nú veit ég hvað þarf til og mun ég gera mitt allra besta frá fyrsta degi næsta tímabils.“ „Ég vil ekki fara og ég tel ekki að félagið vilji sleppa mér. Ég vil skapa mér nafn hér.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×