Viðskipti erlent

Sögð hættuleg evrunni

Paul Krugman
Paul Krugman

Hagfræðingurinn Paul Krugman og auðkýfingurinn George Soros, sem báðir eru Bandaríkjamenn, eru sammála um að aðhaldsstefna Þjóðverja í efnahagsmálum sé evrunni og Evrópusambandinu hættuleg.

„Stefna Þýskalands er hættuleg fyrir Evrópu,“ segir Soros í viðtali við þýska vikublaðið Die Zeit, og á þar við þá miklu áherslu sem þýska stjórnin hefur lagt á strangar sparnaðaraðgerðir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Krugman tekur undir þetta í viðtali við sama blað: „Á venjulegum tímum hefur stöðugleikasiðferði vissa kosti, en við lifum ekkert á venjulegum tímum,“ og segir að sem stendur verði ríki Evrópusambandsins að sætta sig við mikinn fjárlagahalla meðan verið er að yfirstíga verstu vandræði kreppunnar.

„Seðlabanki Evrópu þyrfti að vera miklu sveigjanlegri og áræðnari. Þessi íhaldssama peningamálastjórn er aðallega viðkvæmni Þjóðverja að kenna.“

Báðir segja þeir Soros og Krugman sparnaðaráherslurnar geta haft afdrifaríkar afleiðingar. „Hrun evrunnar er ekki hægt að útiloka,“ segir Soros, sem hefur lengi verið stórtækur í vogunarviðskiptum og meðal annars gert heilu ríkjunum slæmar skráveifur með athafnasemi sinni á fjármálasviðinu.- gb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×