Enski boltinn

Fabregas: Barcelona heillar en ég verð áfram hjá Arsenal

Elvar Geir Magnússon skrifar
Cesc Fabregas í leik með spænska landsliðinu.
Cesc Fabregas í leik með spænska landsliðinu.

Cesc Fabregas mun ekki yfirgefa Arsenal og ganga til liðs við Barcelona fyrir tímabilið, það er nú orðið endanlega ljóst. Arsene Wenger varð að ósk sinni en Fabregas steig fram og tilkynnti að hann væri ekki á förum.

„Ég vil byrja á því að biðjast afsökunar á því að hafa ekki tjáð mig fyrr. Ástæðan er sú að ég hef ekki vitað nákvæmlega hvað ég ætlaði að gera fyrr en núna," sagði Fabregas.

„Ég get ekki neitað því að það var heillandi tilhugsun að ganga til liðs við Barcelona. Þetta er félagið þar sem ég lærði að spila fótbolta, þetta er heimabær minn þar sem fjölskylda mín og fjölskylda eru og félag sem mér hefur alltaf dreymt um að spila fyrir."

„Það eru ekki margir leikmenn í heiminum sem vilja ekki spila fyrir Barcelona. Ég hef rætt oft og mörgum sinnum við Arsene Wenger síðustu mánuði og ætla ekki að opinbera hvað sagt var. Niðurstaðan er allavega sú að Barcelona lagði fram tvö tilboð í mig en Arsenal hafnaði báðum," sagði Fabregas.

„Ég er atvinnumaður og ég skil vel ákvörðun Arsenal að selja mig ekki. Ég skulda félaginu mikið, stjóranum og stuðningsmönnum og mun virða þessa ákvörðun. Nú mun ég einbeita mér að nýju tímabili með Arsenal."

„Ég er leikmaður Arsenal og um leið og ég stíg út á völlinn er það eina félagið sem ég mun hugsa um. Ég hlakka til komandi tímabils og geta einbeitt mér að því að spila fótbolta."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×