Fótbolti

Moratti er tilbúinn að þrefalda laun Capello komi hann til Inter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabio Capello.
Fabio Capello. Mynd/GettyImages
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englendinga, ætlar að hitta fulltrúa enska knattspyrnusambandsins í fyrramálið til þess að ræða framtíð sína með liðið en vitað er um mikinn áhuga frá ítalska liðinu Internazionale til að ráða hann sem eftirmann Jose Mourinho.

Capello er með klásu í samningi sínum sem gefur honum kost á því að segja honum upp eftir HM í Suður-Afríku í sumar en bæði hann sem og enska knattspyrnusambandið vill ganga frá þessum málum fyrir keppnina í Suður-Afríku sem hefst eftir tæpar tvær vikur.

Massimo Moratti, forseti Internazionale, er tilbúinn að þrefalda laun Fabio Capello eftir skatta komi hann til Mílanó en Capello fær sex milljónir punda í árslaun hjá enska knattspyrnusambandinu sem er um 1,1 milljarður íslenskra króna.

Moratti mun einnig láta Capello hafa pening til þess að kaupa nýja leikmenn til liðsins og það er því ljóst að tilboðið frá Internazionale er það spennandi að það hlýtur að hreyfa aðeins við Capello sem hefur þó alltaf sagt að hann vilji vera áfram með enska liðið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×