Innlent

Mikil eldvirkni á Íslandi um þessar mundir

Eyjafjallajökull.
Eyjafjallajökull. Mynd Stefán Karlsson

Hrina eldgosa í Vatnajökli sem hófst árið 1996 er í samræmi við rannsóknir sem íslenskir vísindamenn gerðu og voru birtar fyrst fyrir rúmum áratug.

„Niðurstöður rannsókna á öskulögum í skriðjöklum Vatnajökuls leiddu í ljós að eldgosin söfnuðust í lotur þar sem virknitoppar voru á hér um bil 140 ára fresti," segir Magnús Tumi Guðmundsson prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands sem vann að rannsókninni ásamt Helga Björnssyni jöklafræðingi undir stjórn Guðrúnar Larsen jarðfræðings.

Rannsóknin komst í heimsfréttir um helgina þegar haft var eftir Þorvaldi Þórðarsyni, eldfjallafræðingi og prófessor við Edinborgarháskóla, í Times að allt benti til þess að eldvirkni væri að færast í aukana á Íslandi. Magnús Tumi bendir á að vegna þess að Vatnajökulseldstöðvar eru lang virkastar af öllum á Íslandi þá ráði þær sveiflunum í eldgosafjölda á landinu. Eldgosið í Eyjafjallajökli tengist þó ekki virkni í Vatnajökli.

Hins vegar gæti komið upp sú staða að gysi á nokkrum stöðum á Íslandi í einu á næstunni. Páll Einarsson prófessor í jarðeðlisfræði benti á það í Fréttablaðinu á dögunum að Grímsvötn í Vatnajökli væru komin í sömu stöðu og árið 2004 þegar síðast gaus í þeim. Auk þess fari að koma tími á eldgos í Heklu, ef miðað sé við að hún hefur gosið á tíu ára fresti um það bil. Hekla gaus síðast árið 2000. - sbt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×