Fótbolti

Litið á Ranieri sem „lúser" hjá Chelsea

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Jose Mourinho, þjálfari Inter, er ekki vanur að skafa utan af hlutunum og hann hefur nú sent Claudio Ranieri, þjálfara Roma, vænar sneiðar. Lið þeirra mættust í úrslitum bikarsins á dögunum og þá vann Inter. Liðin berjast einnig á toppi ítölsku deildarinnar.

Báðir þjálfarar hafa stýrt liði Chelsea og Mourinho segir að hjá Chelsea hafi verið talað um Ranieri sem „lúser".

Ranieri gagnrýndi leikstíl Inter á dögunum og því gat Mourinho að sjálfsögðu ekki tekið þegjandi. Mourinho gagnrýndi Ranieri fyrir að kunna ekki að undirbúa sitt lið.

„Maður undirbýr lið sitt á hverjum degi, á hverri æfingu. Það er ekki nóg að sýna myndband daginn fyrir leik. Leikmenn eru fagmenn og það á ekki að koma fram við þá eins og börn. Við kusum að greina leik Roma á æfingasvæðinu. Ef ég sýndi strákunum mínum myndina Gladiator daginn fyrir leik þá myndu þeir bara hlæja að mér," sagði Portúgalinn.

„Það er síðan ekki mín sök að þegar ég kom til Chelsea árið 2004 og spurði af hverju Ranieri væri ekki þarna lengur að þá var mér sagt að þetta lið vildi vinna og það myndi aldrei vinna með Ranieri við stjórnvölinn. Það er ekki mér að kenna að það var litið á hann sem „lúser" hjá Chelsea."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×