Fótbolti

Cristiano Ronaldo getur ekki horft á Meistaradeildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Mynd/AFP
Það var mjög sár tilfinning fyrir Portúgalann Cristiano Ronaldo þegar Real Madrid datt út úr Meistaradeildinni á dögunum. Cristiano Ronaldo hafði farið alla leið í úrslitaleikinn með Manchester United undanfarin tvö ár en var nú úr leik strax í sextán liða úrslitunum.

„Ég get ekki horft á leikina í Meistaradeildinni því þá verð ég svo svekktur og pirraður því ég veit að við erum með nógu gott lið til að vera að keppa þarna. Það er okkur sjálfum að kenna að við séum ekki þarna," sagði Cristiano Ronaldo.

„Við gerðum mistök, ég og hinir leikmenn liðsins, og við verðum að læra af þessu. Við töpuðum en nú þurfum við að lyfta höfðunum á nýjan leik og sjá til þess að við gerum betur næsta vetur. Það er góður möguleiki," sagði Cristiano Ronaldo.

„Ég lít á sjálfan mig sem sigurvegara og ég reyni alltaf að horfa fram á veginn. Það er ekkert auðvelt í þessum heimi því ef lífið væri auðvelt þá myndum við ekki fæðast grátandi," sagði Ronaldo.

Cristiano Ronaldo og félagar einbeita sér nú að baráttunni um spænska meistaratitilinn þar sem liðið er með jafnmörg stig og Barcelona á toppnum.

„Við eigum eftir átta leiki og við verðum að vinna þá alla. Það verður erfitt en ég er sannfærður um að við getumþað," sagði Cristiano Ronaldo fyrir leikinn á móti Racing Santander á morgun en þar getur Real Madrid unnið sinn tólfta deildarleik í röð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×