Stjórnarfrumvarp um styttri fyrningartíma skulda við gjaldþrot – niður í tvö ár – gæti umbylt íslensku fjármálakerfi og þjóðlífi.
Þetta eru í stórum dráttum vangaveltur greiningardeildar Arion banka um frumvarp forsætis- og fjármálaráðherra sem boðað var á þriðjudag.
Greiningardeildin bendir á að til skemmri tíma styrki frumvarpið stöðu skuldara, það geti komið í veg fyrir gjaldþrot og létt á skuldavanda heimilanna.
Á hinn bóginn gætu margir ákveðið að fara gjaldþrotaleiðina. Við það aukist framboð á fasteignamarkaði og eftirspurn dragist saman. Það geti haft í för með sér verri eiginfjárstöðu íbúðareigenda, sem geti leitt til tregðu fjármálafyrirtækja til lánveitinga. Í kjölfarið geti gjaldþrotum fjölgað.
Deildin bendir á að íslensk heimili beri ýmsar aðrar skuldir en húsnæðislán. Hafi fólk möguleika á því að þurrka út skuldir gagnvart Lánasjóði íslenskra námsmanna, kreditkortafyrirtækjum og fleiri með tveggja ára útlegð geti það haft í för með sér grundvallarbreytingar á íslenskum þjóðháttum.
Í kjölfarið verði erfiðara að afla lánsfjár, meira verði um eldri bíla en nú og fólk búa í smærri íbúðum en áður. Tekið er fram í umfjölluninni að enn eigi eftir að kynna frumvarpið og því er ekki ljóst hvernig lögin verði útfærð. jonab@frettabladid.is