Handbolti

Kristinn spáir Akureyri og Fram í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarni Fritzson og félagar í Akureyrarliðinu eru efstir í deildinni.
Bjarni Fritzson og félagar í Akureyrarliðinu eru efstir í deildinni. Mynd/Stefán

Vísir fékk Kristinn Guðmundsson, annan þjálfara karlaliðs HK til þess að spá í undanúrslitaleiki í deildarbikar karla í handbolta sem fara fram í Strandgötu í Hafnarfirði í dag. Kristinn spáir jöfnun og spennandi leikjunum en býst við því að Akureyri og Fram mætist í úrslitaleiknum.

„Ég á ekki von á öðru en að þetta verði mjög spennandi leikir ekki nema einhverjir hafa farið aðeins lengur í jólasteikinni en aðrir," sagði Kristinn í léttum tón og bætti við:

„Ég ætla að veðja á það að þetta fari eftir stöðunni í deildinni. Ég held að Akureyri vinni Hauka og að Fram vinni FH. Lið Akureyrar og Fram eru best mönnuð í dag það er að þau eru að fá mest út úr sem flestum," segir Kristinn.

Leikur Fram og FH hefst klukkan 19.30 og klukkan 21.15 byrjar síðan leikur Akureyrar og Hauka.

Framarar hafa leikið vel á síðustu vikum.
„Þó að Fram hafi tapað síðasta leik þá er það gríðarlega vel mannað og vel stjórnað lið. Þeir eru öflugri á flestum sviðum miðað við FH-liðið eins og staðan er í dag. Ég held að þeir klári þann leik," segir Kristinn.

„Ég held að það sé svo mikil gredda í Akureyrarliðinu og að þeir ætli að fara í þetta mót til þess að reyna að vinna það. Ég hef trú á því að þeir séu ekkert saddir þó að þeir séu efstir í deildinni núna," sagði Kristinn sem spáir Akureyri sigri í væntanlegum úrslitaleik á móti Fram á morgun.

„Ég held að þeir séu líklegastir til að fara inn í þetta mót með þeim formerkjum að ætla virkilega að reyna að vinna það. Það ætla sér allir að vinna þessa leiki en hin liðin leyfa sér kannski aðeins að rúlla aðeins á mannskapnum. Ég held að að Akureyri haldi áfram að keyra á þetta mót með það markmið að vera efstir í öllu sem þeir taka þátt í," sagði Kristinn en tekur það jafnframt fram að allt geti gerst.

„Það má vel verða að það verði síðan Hafnarfjarðarslagur á morgun. Það er ómögulegt að segja til um það þó að ég sé að spá Fram og Akureyri sigri þá er ég ekki að spá þeim stórsigri í þessum leikjum. Þetta verða hörkuleikir," sagði Kristinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×