Málfarsfasisminn Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar 23. nóvember 2010 06:00 Það er fátt í þessum heimi sem fer meira í taugarnar á mér en vitlaus stafsetning og rangt málfar. Ég geri mér grein fyrir því að með því að játa þetta opna ég í fyrsta lagi fyrir það að fólk eins og ég muni grandskoða þennan pistil í leit að villum og í öðru lagi að ég hljóma alveg hreint ótrúlega leiðinleg í eyrum þeirra sem ekki falla í umræddan hóp. Ég get bara ekkert að þessu gert. Skiptin sem ég hef verið komin á fremsta hlunn með að senda tölvupósta á vefmiðla til þess að leiðrétta villur í fréttum eru óteljandi. Sem betur fer hef ég alltaf stoppað mig af. Þegar ég fæ tölvupóst frá háskólakennara sem skrifar bandvitlaust get ég ekki annað en dæmt aðeins og það sama gildir um aðra. Nema náttúrulega þá sem eru les- eða skrifblindir, þá er ég samúðin uppmáluð. Sökum kurteisi eða kannski af ótta við að fá á mig málfarsfasismastimpil leiðrétti ég samt yfirleitt ekki. Einfaldar stafsetningarvillur eru eitt, og að ruglast á i og y og -n og -nn getur nú komið fyrir alla. Boðskapurinn kemst alveg til skila. Það er þegar fólk ruglar saman orðum eða orðatiltækjum sem lítill hluti af mér deyr - villu fyrir villu. Svo ekki sé minnst á kolrangar beygingar. Fólk virðist samt algjörlega vera hætt að kippa sér upp við "mig hlakkar til að sjá þig." Nú eða það allra, allra versta í mínum bókum: að nota orðið víst í staðinn fyrir fyrst. Sorrí leiðindin, en þessi víxlun bara gengur engan veginn upp. Er fólk bara hætt að hlusta á sjálft sig tala? Þó að ég sé haldin þessum leiðindasjúkdómi, eða kannski einmitt vegna þess, er ég skíthrædd um að fá á mig gagnrýni af þessu tagi. Mér finnst ég eiga að kunna þetta. Fyrir nokkrum árum hrósaði pabbi minn mér fyrir pistil sem ég skrifaði í þetta blað en bætti við í gríni að ég hefði samt skrifað "músirnar" í stað "mýsnar" einhvers staðar. Af hverju ég var að tala um mýs er mér löngu gleymt. En ég var miður mín lengi og vonaði heitt að enginn annar hefði tekið eftir þessari hörmung. (Og nú er bara að vona að enginn finni villu hér). Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Þórunn Elísabet Bogadóttir Mest lesið Halldór 26.04.2025 Halldór Friður - í framsöguhætti eða viðtengingarhætti? Bryndís Schram Skoðun SFS, Exit og norska leiðin þeirra Jón Kaldal Skoðun Íslenskar pyndingar Guðmundur Ingi Þóroddsson Skoðun Löngu þarft samtal um hóp sem gleymist! Katarzyna Kubiś Skoðun Að hata einhvern sem þú þarft á að halda? Katrín Pétursdóttir Skoðun Næringarfræði er lykillinn að betri heilsu, viltu vera með? Guðrún Nanna Egilsdóttir Skoðun Mega bara íslenskir karlmenn nauðga konum á Íslandi? Guðný S. Bjarnadóttir Skoðun Að sækja gullið (okkar) Þröstur Friðfinnsson Skoðun Menntun fyrir öll – nema okkur Haukur Guðmundsson Skoðun
Það er fátt í þessum heimi sem fer meira í taugarnar á mér en vitlaus stafsetning og rangt málfar. Ég geri mér grein fyrir því að með því að játa þetta opna ég í fyrsta lagi fyrir það að fólk eins og ég muni grandskoða þennan pistil í leit að villum og í öðru lagi að ég hljóma alveg hreint ótrúlega leiðinleg í eyrum þeirra sem ekki falla í umræddan hóp. Ég get bara ekkert að þessu gert. Skiptin sem ég hef verið komin á fremsta hlunn með að senda tölvupósta á vefmiðla til þess að leiðrétta villur í fréttum eru óteljandi. Sem betur fer hef ég alltaf stoppað mig af. Þegar ég fæ tölvupóst frá háskólakennara sem skrifar bandvitlaust get ég ekki annað en dæmt aðeins og það sama gildir um aðra. Nema náttúrulega þá sem eru les- eða skrifblindir, þá er ég samúðin uppmáluð. Sökum kurteisi eða kannski af ótta við að fá á mig málfarsfasismastimpil leiðrétti ég samt yfirleitt ekki. Einfaldar stafsetningarvillur eru eitt, og að ruglast á i og y og -n og -nn getur nú komið fyrir alla. Boðskapurinn kemst alveg til skila. Það er þegar fólk ruglar saman orðum eða orðatiltækjum sem lítill hluti af mér deyr - villu fyrir villu. Svo ekki sé minnst á kolrangar beygingar. Fólk virðist samt algjörlega vera hætt að kippa sér upp við "mig hlakkar til að sjá þig." Nú eða það allra, allra versta í mínum bókum: að nota orðið víst í staðinn fyrir fyrst. Sorrí leiðindin, en þessi víxlun bara gengur engan veginn upp. Er fólk bara hætt að hlusta á sjálft sig tala? Þó að ég sé haldin þessum leiðindasjúkdómi, eða kannski einmitt vegna þess, er ég skíthrædd um að fá á mig gagnrýni af þessu tagi. Mér finnst ég eiga að kunna þetta. Fyrir nokkrum árum hrósaði pabbi minn mér fyrir pistil sem ég skrifaði í þetta blað en bætti við í gríni að ég hefði samt skrifað "músirnar" í stað "mýsnar" einhvers staðar. Af hverju ég var að tala um mýs er mér löngu gleymt. En ég var miður mín lengi og vonaði heitt að enginn annar hefði tekið eftir þessari hörmung. (Og nú er bara að vona að enginn finni villu hér).