Handbolti

Vill sjá liðið fara í undanúrslit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stella Sigurðardóttir hefur skorað 12 mörk í tveimur leikjum á móti  svissneska liðinu Brühl.
Stella Sigurðardóttir hefur skorað 12 mörk í tveimur leikjum á móti svissneska liðinu Brühl.

Framkonur mæta úkraínska liðinu Podatkova í Evrópukeppni bikarhafa og fara báðir leikirnir fram í Framhúsinu um helgina. Fyrri leikurinn, sem er heimaleikur Fram, fer fram klukkan 19.00 í kvöld en seinni leikurinn verður síðan klukkan 17.00 á morgun.

„Við vitum voða lítið um þetta lið en ég held að við eigum að klára þetta nokkuð sannfærandi,“ segir Einar Jónsson, þjálfari Framliðsins.

„Við ætlum okkur stóra hluti í þessari Evrópukeppni og ég myndi vilja sjá okkur reyna við undanúrslitin,“ segir Einar en liðið var hársbreidd frá því að fara í undan­úrslit í áskorendakeppninni í fyrra.

„Það verður vonandi ódýrari kostur fyrir okkur að spila báða leikina heima að því gefnu að fólk mæti á völlinn og við fáum einhverjar tekjur af leikjunum,“ segir Einar en Framarar ætla að bjóða upp á hamborgara og einhverja kvöldhressingu á vægu verði fyrir leikinn í kvöld.

Einar segir fyrri leikinn skipta miklu máli og hann er óhræddur við að keyra upp hraðann þótt það sé innan við sólarhringur á milli leikjanna. „Við ætlum að keyra þetta á háu tempói og við teljum okkur vera í það góðu standi og með það góða breidd,“ segir Einar.

Einar er mjög sáttur við sínar stelpur það sem af er tímabilinu. „Við höfum verið mjög sannfærandi hérna heima og spiluðum líka mjög vel í Evrópuleikjunum úti í Sviss. Mér sýnist vera smá þroskamerki á liðinu miðað við árið í fyrra,“ segir Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×