Viðskipti erlent

Cartier armband selt fyrir 800 milljónir hjá Sotheby´s

Cartier armband í líki hlébarða var selt fyrir 4,5 milljónir punda, eða rúmlega 800 milljónir kr., á uppboði hjá Sotheby´s í vikunni. Er þetta mesta verð sem greitt hefur verið fyrir armband í sögunni.

Í frétt um málið á BBC segir að armbandið hafi áður verið í eigu Wallis Simpson, ástkonu Edward VIII, en ástarsamband þeirra og hjónaband var eitt hið þekktasta á fyrrihluta síðustu aldar enda mjög umdeilt þar sem hún var fráskilin kona. Fór svo að lokum að Edward afsalaði sér bresku krúnunni vegna Simpson en hélt titli sínum sem hertoginn af Windsor.

Armbandið var sett á uppboð auk 19 annarra muna úr eigu þeirra hjóna sem seldir voru á uppboðinu. Meðal annars var Cartier brjóstnæla seld á 1,7 milljónir punda en í heild fengust 8 milljónir punda fyrir alla munina eða nær 1,5 milljarður kr.

Cartier skartgripir voru í miklu uppáhaldi hjá Wallis Simpson og sérsmíðaði skartgripahúsið marga gripi fyrir hana.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×