Fótbolti

Mourinho vildi fá einn framherja til viðbótar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid.
Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid. Nordic Photos / AFP

Jose Mourinho hefur greint frá því að hann vildi fá einn framherja til viðbótar til liðs við Real Madrid áður en félagaskiptaglugginn lokaði.

Talið er að Mourinho hafi helst haft áhuga á að fá annað hvort Didier Drogba frá Chelsea eða Samuel Eto'o frá Inter á Ítalíu en hann hefur þjálfað bæði félög áður.

Hins vegar tókst það ekki og verður því Mourinho að láta sér þá Gonzalo Higuain og Karim Benzema nægja.

„Sem þjálfarar erum við alltaf óánægðir. Við viljum alltaf meira og þess vegna bað ég um að fá nýja leikmenn," sagði Mourinho.

„Ég vildi fá annan framherja. Það er ekki nóg að vera með Higuain og Benzema."

„En það er ekki auðvelt að fara með svona mál hjá Real Madrid. Ef maður réttir út einn fingur verður stormur."

Mourinho hefur þó keypt marga góða leikmenn í sumar, til að mynda Mesut Özil, Sami Khedira, Angel di Maria og Ricardo Carvalho.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×