Fótbolti

Guardiola: Ég vil frekar vinna alla hina leikina en Real-leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola, þjálfari Barcelona.
Pep Guardiola, þjálfari Barcelona. Mynd/AFP

Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, segir að stórsókn liðsins á upphafsmínútunum í Meistaradeildarleiknum á móti Arsenal sé eitthvað sem sjáist bara aðeins einu sinni á ævi hvers manns.

Evrópumeistararnir fengu frábær færi til þess að skora fjórum eða fimm sinnum á fyrstu fimmtán mínútum leiksins en mörkin komu þó ekki fyrr en í seinni hálfleiknum og Arsenal náði á endanum að tryggja sér 2-2 jafntefli.

„Ellefu skot á fimmtán mínútum er eitthvað sem gerist bara einu sinni á ævinni," sagði Pep Guardiola í viðtölum við spænska blaðamenn fyrir leikinn á móti Athletic Bilbao í spænsku deildinni í kvöld.

„Við getum ekki búist við öðru eins í leiknum á móti Bilbao. Við verðum samt að reyna ná upp sömu vinnusemi í liðinu og í fyrri hálfleiknum á móti Arsenal," sagði Pep Guardiola en framundan er rosalega vika hjá liðinu þar sem liðið mætir fyrst Arsenal á Nývangi á þriðjudaginn og spilar síðan við Real Madrid á Bernabeu á laugardaginn.

„Það er mitt verkefni að sjá til þess að mínir menn hugsi ekki um neitt annað en Athletic Bilbao. Leikurinn á móti Real Madrid skiptir kannski minnstu máli af þeim deildarleikjum sem eru eftir. Ég vildi frekar vinna alla hina deildarleikina en þann leik," sagði Pep Guardiola.

„Eftir Clasico-leikinn er ennþá 21 stig eftir í pottinum og allir þeir leikir eru eins erfiður og þessi leikur á Bernabeu," bætti Guardiola við.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×