Fótbolti

Auglýsing á treyjum Barcelona í fyrsta sinn

Hörður Magnússon skrifar

Spænski risinn Barcelona hefur gert auglýsingasamning við Katar-stofnunina (Quatar Foundation). Vörumerki stofnunarinnar verður á treyjum Barcelona.

Þetta er í fyrsta skipti í 111 ára sögu Barcelona sem það verður auglýsing á treyjum félagsins. Barcelona hefur stært sig af því að hafa ekki auglýsingar á treyjunum en Unicef, barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur prýtt treyjuna undanfarin ár án greiðslu.

Samningur Barcelona við Katar-stofnunina gefur félaginu 23 milljarða króna á fimm árum. Katar-stofnunin er góðgerðarfélag sem einbeitir sér að mestu að útbreiðslu menntunar í Mið-Austurlöndum.

Barcelona hefur verið í miklum fjárhagserfiðleikum og upplýst var í júlí að félagið skuldaði 68 milljarða króna. Barcelona er í efsta sæti spænsku deildarinnar og leikur gegn Real Sociedad á sunnudag í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×