Fótbolti

Stórt tap á rekstri Juventus

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Það hefur lítið gengið hjá Juventus í vetur.
Það hefur lítið gengið hjá Juventus í vetur. Nordic Photos / AFP
Juventus tilkynnti í dag að félagið tapaði 6,3 milljörðum króna á fyrri hluta tímabilsins eða 39,5 milljónum evra.

Tekjur félagsins minnkuðu um 29 prósent frá síðasta ári og má skýra það fyrst og fremst vegna þess að félagið er nú að keppa í Evrópudeild UEFA en ekki Meistaradeild Evrópu.

Þá hefur einnig breytt fyrirkomulag á því hvernig sjónvarpstekjum er deilt á milli félaga á Ítalíu haft sitt að segja.

Stjórn félagsins sagði einnig að hún ætti von á því að tap á síðari hluta tímabilsins yrði einnig umtalsvert.

Liðinu hefur einnig gengið illa á tímabilinu til þessa og tapað fjórum af síðustu sex leikjum þess, þar af tveimur í röð. Juventus er nú í sjöunda sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar, sjö stigum frá Meistaradeildarsæti.

Fjárfestingafélag Muammar Gaddafi, Lýbíuforseta, á 7,5 prósenta hlut í félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×