Handbolti

Króatar lögðu Spánverja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Varnarmenn Serbíu taka á Jerome Fernandez í leiknum í Frakklandi í gær.
Varnarmenn Serbíu taka á Jerome Fernandez í leiknum í Frakklandi í gær. Nordic Photos / AFP
Það var stórleikur í undankeppni EM 2012 í Ciudad Real á Spáni í gær en þar töpuðu heimamenn fyrir Króötum, 26-24.

Króatía þótti valda vonbrigðum á HM í Svíþjóð en liðið varð í fimmta sæti eftir að hafa unnið Íslendinga í lokaleik sínum á mótinu.

Spánverjar komust hins vegar alla leið í undanúrslitin og unnu til bronsverðlauna eftir að hafa lagt heimamenn að velli.

Króatar eru nú með fullt hús stiga í sínum riðli í undankeppni EM 2012 en Spánverjar eru með fjögur. Það verður þó að teljast afar líklegt að bæði lið muni komast áfram upp úr riðlinum.

Litháen fékk sín fyrstu stig í sama riðli í gær með því að vinna nokkuð óvæntan sigur Rúmeníu á heimavelli, 24-23.

Þá mættust Frakkland og Serbía í vináttulandsleik í Frakklandi í gær þar sem heimamenn unnu nauman sigur, 29-28. Bæði lið taka ekki þátt í undankeppninni þar sem Frakkar eru ríkjandi Evrópumeistarar og Serbar verða gestgjafar á mótinu sjálfu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×