Handbolti

Ólafur á bara að spila stóru leikina með AG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur fagnar hér sigri í Meistaradeildinni með Ciudad Real.
Ólafur fagnar hér sigri í Meistaradeildinni með Ciudad Real. Mynd/AFP
Jesper Nielsen vill spara Ólaf Stefánsson fyrir stóru leikina þegar íslenski landsliðsmaðurinn fer að spila með danska liðinu AG Kaupmannahöfn á næsta tímabili. Jesper hefur mikla trú á Ólafi sem fagnar 38 ára afmæli sínu næsta sumar og sér hann sem mikilvægan leikmann fyrir nýja súper-liðið sem hann er að sitja saman.

„Við náðum í Ólaf til þess að spila í stóru leikjunum þar sem hann er ískaldur. Hann mun ekki spila tvisvar sinnum 30 mínútur á móti liðum eins og Lemvig. Ólafur er líka ekki mikið spenntur fyrir því," sagði Jesper Nielsen um samning hans við Ólaf í viðtalsþættinum HåndboldDebatten á dönsku sjónvarpsstöðinni TV2 í gærkvöldi.

AG verður sjötta félagið sem Ólafur spilar með á ferlinum en hann hefur áður leikið með Val, Wuppertal, Magdeburg, Ciudad Real og Rhein-Neckar Löwen sem er núverandi félag hans.

Jesper Nielsen hefur sett stefnuna á því að gera góða hluti í Evrópukeppninni en Ólafur hefur þegar hjálpað sínum félögum að vinna sex Evróputitla þar af hefur hann unnið Meistaradeildina fjórum sinnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×