Stærsta íþróttastjarna Kínverja, Yao Ming, hefur tilkynnt að hann sé hættur í körfubolta. Þrálát meiðsli gerðu það að verkum að Ming neyðist til þess að leggja skóna á hilluna.
Ming er þó ekki hættur að skipta sér af körfubolta en hann mun líklega taka við framkvæmdastjórastöðu hjá Shanghai Sharks í kínversku deildinni.
Þessi ákvörðun Ming kemur engum á óvart og hefur verið beðið eftir henni í nokkrar vikur.
"Ég er búinn að margfara yfir málið og það hefur tekið á. Þessum kafla er lokið. Nú er þessum kafla í lífi mínu lokið og annar tekur við," sagði Ming.
Ming missti af 250 leikjum með Houston Rockets á síðustu sex árum. Það er um helmingur leikja Rockets.
Körfubolti