Viðskipti erlent

Krafa Finna setur neyðaraðstoð til Grikkja í uppnám

Krafa Finna um að fá veð frá Grikkjum fyrir sínum hluta af nýjustu neyðaraðstoð Evrópusambandsins til Grikklands hefur sett málið í uppnám.

Finnar eru eina Evrópusambandsþjóðin sem gert hefur kröfu um að fá veð beint frá grískum stjórnvöldum fyrir sínum hluta af þeirri 109 milljarða evra neyðaraðstoð sem samþykkt var fyrr í sumar. Þetta þýðir að Grikkir verða að depónera töluvert mörgum milljónum evra inn á bankareikning sem veði fyrir kostnaði Finna.

Í frétt um málið á vefsíðu börsen segir að fallist hafi verið á kröfu Finna á aukafundi evru-landanna í síðasta mánuði. Nokkur evrulönd, með Holland í forystu, eru hinsvegar mjög ósátt við þetta fyrirkomulag. Raunar hafa hollensk stjórnvöld sagst vera alfarið á móti því. Bæði Austurríki og Slovakía hafa fylgt í kjölfarið og segja að öll löndin eigi að sitja við sama borð í þessu máli.

Börsen getur þess að Finnar hafa skerpt mjög á kröfum sínum í garð Evrópusambandsins eftir þingkosningarnar í apríl þar sem flokkurinn Sannir Finnar náðu yfir 20% atkvæða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×