Handbolti

Rhein-Neckar Löwen náði ótrúlegu jafntefli gegn Melsungen

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Löwen.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Löwen. Nordic Photos / Getty Images
Rhein-Neckar Löwen náði að í jafntefli gegn Melsungen á heimavelli, 30-30, með því að skora tvö mörk á síðustu mínútu leiksins.

Norðmaðurinn Börge Lund var hetja Löwen í leiknum en hann skoraði jöfnunarmarkið þegar ellefu sekúndur voru til leiksloka. Melsungen fékk eina sókn til viðbótar en náði ekki að skora úr henni en liðið var með tveggja marka forystu, 30-28, þegar tæp mínúta var til leiksloka.

Það stefndi því í þriðja tap Löwen á tímabilinu en liðið var með forystuna lengi vel í leiknum í dag. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Löwen hóf þó þann síðari með tveggja marka forystu. Mest varð forysta Löwen fimm mörk í seinni hálfleik en gestirnir frá Melsungen náðu að jafna leikinn þegar um tíu mínútur voru til leiksloka.

Melsungen sigldi svo fram úr á lokamínútunum áður en leikmenn Löwen náðu að tryggja sér jafnteflið með mikilli baráttu á lokakaflanum.

Guðmundur Guðmundsson er þjálfari Löwen og Róbert Gunnarsson leikur með félaginu. Hann skoraði fjögur mörk í dag.

Bæði lið eru með níu stig en Melsungen á þó leik til góða á Löwen. Liðin eru fimm stigum á eftir toppliði Kiel.

Flensburg kom sér upp í þriðja sæti deildarinnar í dag með sex marka sigri á Wetzlar á heimavelli, 36-30. Kári Kristján Kristjánsson var markahæsti leikmaður Wetzlar í leiknum með sjö mörk en Wetzlar er í níunda sæti deildarinnar með sex stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×