Franski landsliðsmaðurinn og NBA-stjarnan Tony Parker ætlar að spila í frönsku deildinni á meðan verkfallið stendur yfir í NBA-deildinni. Parker setur þó ekki háar launakröfur eins og margar aðrar NBA-stjörnur enda situr hann báðum megin við borðið hjá franska félaginu.
Parker mun spila með ASVEL-liðinu sem er frá Villeurbanne rétt hjá Lyon í suður-austur Frakklandi. Parker sagði við franska blaðið L’Equipe að það væri rökrétt fyrir hann að spila með ASVEL en Parker er einmitt varaforseti félagsins.
„Ég er næstum því að spila frítt og ef ég verð þarna allt tímabilið þá ætlum við að vinna titilinn," sagði Tony Parker við blaðamann L’Equipe. Parker fær 1995 dollara í mánaðarlaun eða um 240 þúsund íslenskar krónur sem þykja algjörir smáaurar fyrir NBA-leikmenn.
Parker fékk 13,5 milljónir dollara fyrir síðasta tímabil sitt með San Antonio eða rúma 1,6 milljarða íslenskra króna. Ef miðað er við að NBA-tímabilið sé átta mánuðir þá var hann með 202 milljónir á mánuði hjá Spurs.
Parker hefur unnið þrjá NBA-titla með San Antonio Spurs og þykir með betri leikstjórnendum deildarinnar en hann var með 17,5 stig og 6,6 stoðsendingar að meðaltali í leik á síðustu leiktíð. Hann hjálpaði franska landsliðinu til að vinna silfur á EM á dögunum.
Körfubolti