Geir H. Haarde segir frávísun Landsdóms á tveimur fyrstu ákæruliðunum áfangasigur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrrverandi forsætisráðherranum.
Þar segir Geir: „Ég lít á það sem áfangasigur því um er að ræða tvo veigamestu ákæruliðina og jafnframt þyngstu sakargiftirnar.“
Geir segir það viss vonbrigði að málinu hafi ekki verið vísað frá í heild sinni eins og hann hafði vonast til.
Hér fyrir neðan er hægt að lesa tilkynningu Geirs í heild sinni:
Landsdómur hefur úrskurðað að máli Alþingis gegn mér skuli vísað frá að hluta. Ég lít á það sem áfangasigur því um er að ræða tvo veigamestu ákæruliðina og jafnframt þyngstu sakargiftirnar.
Ég og lögmaður minn höfðum á hinn bóginn talið tilefni til að vísa málinu frá í heild og að því leyti veldur niðurstaðan vonbrigðum.
Það var að mínum dómi nauðsynlegt að kalla fram með frávísunarkröfu ákvörðun dómsins um það hvort málsmeðferð í þesu máli hafi uppfyllt skilyrði laga. Það var nauðsynlegt m.t.t. þess hvernig staðið verður að meðferð mála sem þessara í framtíðinni.
Nú blasir við að málið fer til efnismeðferðar sem hefst væntanlega eftir áramót. Eftir standa fjórir ákæruliðir og er ég þess albúinn að sýna fram á sakleysi mitt hvað þá varðar við meðferð málsins.
Ég verð þá loks yfirheyrður fyrir dómi ásamt tugum annarra einstaklinga sem málinu tengjast. Vonandi gengur þá greiðlega að leiða hið sanna í ljós í málinu. Ég ber sem fyrr fullt traust til réttarkerfisins í landinu.

