Viðskipti innlent

"Algjörlega galið" að auka ríkisútgjöld í uppsveiflunni

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að Seðlabankinn hafi verið í erfiðri stöðu fyrir hrun því aðhald í ríkisfjármálum hafi verið lítið. Hann segir það hafa verið „algjörlega galið" að auka ríkisútgjöld á árinu 2007 í einni mestu uppsveiflu sögunnar, en þá var Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn með Samfylkingunni. Þetta kom fram í viðtali við Orra en hann var gestur í nýjasta þættinum af Klinkinu á viðskiptavef Vísis og Stöðvar 2.

Orri sagði aga í ríkisfjármálum mikilvægan, óháð gjaldmiðlinum. „Hvort sem við erum með okkar eigin gjaldmiðil eða annarra manna gjaldmiðil þá þurfum við að taka til í okkar ranni. Við þurfum að samræma ríkisfjármálin peningamálastefnunni. Seðlabankinn hefur oft verið gagnrýndur á undanförnum árum en það verður að virða þeim það til vorkunnar að þeir voru fyrir hrun með ríkisfjármál sem voru á leið í allt aðra átt. Á milli áranna 2007 og 2008 hækkuðu ríkisútgjöld um 25 prósent. Hluti af því var reyndar vegna hrunsins, sem kom kostnaður á seinni hluta ársins 2008, en menn voru að ákveða það á toppi mestu uppsveiflu síðari tíma að hækka ríkisútgjöld verulega."

Galið? „Algjörlega galið."

Sjálfstæðisflokkurinn bar ábyrgð á því? „Já, já, hvaða flokkar sem voru, þetta var svo innilega rangt og dró allan mátt úr peningastefnunni," segir Orri. Sjá má bút úr viðtalinu þar sem Orri fer yfir ríkisfjármálin hér fyrir ofan. Viðtalið í heild sinni má finna hér.thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×