Viðskipti erlent

Air Atlanta tekur skýþjónustu Microsoft í notkun

Air Atlanta hefur tekið í notkun Office 365 skýþjónustu Microsoft, í samvinnu við Nýherja. Um er að ræða fyrstu innleiðingu Nýherja á Microsoft Office 365 fyrir viðskiptavin.

Í tilkynningu segir að lausnin gerir fyrirtækjum mögulegt að sækja Exchange póstþjónustu, Office skrifstofuvöndul og upplýsingakerfið SharePoint um tölvuský. Ennfremur geta notendur nýtt sér spjall og fjarfundi með Microsoft Lync.

„Við bindum miklar vonir við Microsoft Office 365 skýþjónustu enda felur hún í sér umtalsvert öryggi og hagræði. Við getum meðal annars rekið póstkerfi fyrir áhöfn og skrifstofufólk um eitt umsýslukerfi í stað þess að stýra tveimur kerfum. Í því felst talsverður ávinningur fyrir félagið," segir Gnúpur Halldórsson forstöðumaður upplýsingatæknideildar Air Atlanta.

„Microsoft Office 365 skýþjónusta er spennandi lausn sem veitir viðskiptavinum einfalt aðgengi að þjónustu, kerfum og gögnum hvar sem er með öruggum hætti, hvort sem það er í gegnum tölvu eða Windows snjallsíma og fleiri tegundir. Við finnum fyrir miklum áhuga á lausninni meðal fyrirtækja sem sýnir sig að íslensk fyrirtæki eru í fararbroddi í innleiðingu á nýrri tækni," segir Þorvaldur Jacobsen framkvæmdastjóri tæknisviðs Nýherja.

Air Atlanta sérhæfir sig í leiguverkefnum í flugi og á vegum þess starfa um 1.100 manns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×