Hornamaðurinn Þórir Ólafsson átti fínan leik gegn Brasilíu í kvöld og skoraði fimm góð mörk. Þórir hefur verið að glíma við létt veikindi síðan hann kom til Svíþjóðar en hann virkaði frískur í gær.
"Heilsan er fín. Pústið er kannski ekki það besta en maður hristir það af sér," sagði Þórir léttur eftir leikinn í kvöld.
"Við eigum að kunna að gíra okkur upp í svona leiki þar sem við erum sterkari andstæðingurinnn. Við vorum klárir í þetta og náðum að halda þetta út. Það var mjög gott.Það var mikilvægt að ná að dreifa spilinu og álaginu í dag," sagði Þórir sem meiddist lítillega í leiknum og sagði að það myndi skýrast á morgun hvort það væri í lagi með hann.