Viðskipti erlent

Auður Dana vanmetinn um rúma 2.000 milljarða

Samanlagður auður Dana hefur verið vanmetinn undanfarin ár. Talið er að bæta megi um 100 milljörðum danskra kr., eða yfir 2.000 milljörðum kr. við opinberar tölur um auð Dana þ.e. landsframleiðslu landsins.

Í umfjöllun Berlingske Tidende um málið segir að þetta skýrist einkum af því að Danir fái æ hærri upphæðir af fjárfestingum sínum utan Danmerkur, það er hagnað og vexti.

Þetta kemur fram í nýrri greiningu frá Efnahagsráði verkalýðsfélaganna (AE-rådet) í Danmörku. Þar segir að undir eðlilegum kringumstæðum sé auður þjóðar mældur með landsframleiðslu hennar. Í tilviki Dana nemur hún um 1.700 milljörðum danskra kr. á ári eða sem svarar til 315.000 danskra kr. á hvern íbúa landsins. Með því að bæta tekjum af fjárfestingum erlendis hækkar meðaltalið um 20.000 danskrar kr. eða upp í 335.000 danskra kr.

Auknar tekjur af fjárfestingum erlendis eru tilkomnar vegna þess að erlendir skuldir Dana eru horfnar en í staðinn eru komnar inneignir erlendis. Vextir af þeim inneignum vaxa stöðugt.

Fram kemur í umfjöllun Berlinske Tidende að það séu einkum fjármunir sem streyma í sístækkandi sjóði lífeyrissjóða landsins sem fjárfest er fyrir utan Danmerkur. Þessar fjárfestingar, í hluta- og skuldabréfum, gefi af sér tekjur sem bæta viðskiptajöfnuð landsins.

Berlingke Tidende segir að það sé af sem áður var þegar miklar erlendar skuldir íþyngdu Dönum. Þetta var áður en dönsk fyrirtæki fóru í útrás og juku við fjárfestingar sínar í öðrum löndum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×