Innlent

Heimasíða Árna Páls hökkuð - Segir af sér vegna óánægju

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það lítur út fyrir að það hafi verið brotist inn á heimasíðu Árna Páls.
Það lítur út fyrir að það hafi verið brotist inn á heimasíðu Árna Páls.
„Ég hef ákveðið að segja af mér vegna vaxandi óánægju í minn garð frá almenningi." Svona hljóðar yfirlýsing sem birt er á vefsíðu Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, í dag. Engar fréttir hafa borist af því að til stæði að Árni Páll viki úr ríkisstjórn á næstunni og því verður að teljast víst að hann hafi ekki skrifað færsluna sjálfur.

En í færslunni segir:

„Ég vill geta verið í stjórn þar sem fólkið í landinu er ánægt með mín störf frekar en að fá haturs tölvupósta oft a dag. Einnig er stjórn Vinstri Grænna klofin og algjörlega óstarfhæf þar sem þau neita að hlusta á okkur."

Þá segir að færslan sé skrifuð í mikilli flýti og því von á frekari yfirlýsingu þegar líður að kvöldi.

Vísir hefur hvorki náð í Árna Pál Árnason né Kristrúnu Heimisdóttur, aðstoðarmann hans, vegna málsins. Þó má telja nær öruggt að brotist hafi verið inn á heimasíðuna og þessi texti settur inn án vitundar Árna Páls.





Færsla Árna Páls í heild
Svona leit síðan hans Árna Páls út í dag.
„Ég er kominn með nóg - Takk fyrir mig.

Ég hef ákveðið að segja af mér vegna vaxandi óánægju í minn garð frá almenningi. Ég vill geta verið í stjórn þar sem fólkið í landinu er ánægt með mín störf frekar en að fá haturs tölvupósta oft a dag. Einnig er stjórn Vinstri Grænna klofin og algjörlega óstarfhæf þar sem þau neita að hlusta á okkur.

Ég skrifa þetta í miklu flýti og ég kem með frekari yfirlýsingu þegar líður að kvöldi.

Takk fyrir mig og afsakið að ég hafi ekki staðið mig nógu vel í þessu starfi.

Kv. Árni Páll Árnason"






Fleiri fréttir

Sjá meira


×