Handbolti

Strákarnir hans Patreks byrja vel í undankeppni HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrekur Jóhannesson.
Patrekur Jóhannesson. Mynd/Stefán
Austurríska landsliðið vann öruggan fimmtán marka sigur á Bretlandi, 37-22, í fyrsta leiknum í sínum riðli í undankeppni HM í handbolta 2013 en þetta var fyrsti mótsleikur Austurríkis undir stjórn Patreks Jóhannessonar. Austurríki er í riðli með Bretlandi og Ísrael og vinnur efsta liðið sér sæti í umspili um sæti á HM 2013 sem fram fer á Spáni.

Raul Santos skoraði 12 mörk fyrir austurríska landsliðið og þeir Janko Bozovic, Robert Weber og Andreas Lassner skoruðu allir fjögur mörk hver. Austurríki var 19-8 yfir í hálfleik. Leikurinn fór fram í Tulln í Austurríki en liðin mætast síðan aftur í Crystal Palace á sunnudaginn.

Breska liðið á ekki lengur möguleika á því að vinna riðilinn því Ísrael vann báða leiki liðanna í nóvember, fyrst 29-26 í Bretland og svo 29-20 í Ísrael.

Þetta var annars fjórði sigur austurríska landsliðsins í röð undir stjórn Patreks en liðið vann einnig þrjá síðustu vináttulandsleiki sína; 31-28 á móti Hvíta-Rússlandi 6. nóvember og tvo leiki á móti Alsír rétt fyrir jól, 24-21 og 30-28.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×