Viðskipti erlent

Tækniárið 2012 - Hvað er í pípunum hjá Apple, Facebook og Google?

Arnór Bogason skrifar
Apple vörur njóta síaukinna vinsælda á Íslandi sem sýndi sig vel á útsölu Epli.is nú rétt fyrir áramót.
Apple vörur njóta síaukinna vinsælda á Íslandi sem sýndi sig vel á útsölu Epli.is nú rétt fyrir áramót. Mynd/Valli
Síðasta ár var viðburðarríkt í tækniheiminum en 2012 verður án efa enginn eftirbátur þess. Við skulum renna yfir það allra helsta sem gæti borið fyrir augu tækniunnenda á þessu ári.

Apple kynnir sjónvarp og uppfærða spjaldtölvuApple verður með blaðamannafund í seinni hluta janúar, en ekki er vitað með vissu hvað verður þar kynnt. Þó er talið víst að það hafi lítið að gera með tónlist eða kvikmyndir. Kynningin gæti mögulega snúist um nýja iMac-borðtölvu eða bara netverslun fyrir kennslurafbækur, en það kemur fljótlega í ljós.

Kindle Fire frá Amazon hefur notið aukinna vinsælda þegar kemur að spjaldtölvum en það er helst verðið sem heillar neytendur. Það keppir reyndar enginn við Apple þegar kemur að verði og gæðum og þegar iPad 3 kemur út á öðrum ársfjórðungi 2012 verður staða Apple á spjaldtölvumarkaðnum betri en nokkru sinni. Meðal mögulegra eiginleika nýju útgáfunnar verður nýr og hraðari A6 örgjörvi, 8 megapixla myndavél með bættri HD upptöku og f/2.4 ljósopi rétt eins og í iPhone 4S. Það má líka gera því skóna að upplausnin á skjánum á nýjum iPad verði enn betri.

iPhone 5 gæti komið (seint) á árinu, en það er ekki hægt að reikna með því, frekar en nokkru þegar rætt er um Apple. Margir segja að iPhone 5 verði bæði þynnri en forverar sínir, líklega eitthvað stærri og með eilítið stærri skjá.

Orðrómurinn um sjónvarp frá Apple verður æ háværari og á þessu ári munu Tim Cook og félagar mögulega kynna vöru sem er byggð á lausn Steve Jobs á stóra fjarstýringarvandamálinu: iTV verður fyrst um sinn aðeins fáanlegt í Bandaríkjunum og mun taka við skipunum í gegnum raddstýringarbúnað Apple, Siri. Ekki er hægt að segja margt um þetta væntanlega sjónvarp frá Apple en það verður væntanlega fallegt og með svipuðu stjórnkerfi og AppleTV-boxið sem tengt er við sjónvörp og gerir eigandanum kleift að horfa á efni úr netverslun Apple, svo eitthvað sé nefnt. Sagt er að Jony Ive, yfirhönnuður sé með 50 tommu frumgerð af sjónvarpinu heima hjá sér.

Facebook á markað
Tímalínan sækir í sig veðrið á árinu.
Síðasta ár var stórt fyrir Facebook. Nýjasta afsprengi fyrirtækisins, Timeline var kynnt og í lok árs bauðst almennum notendum að skipta út prófílnum fyrir þessa nýjung sem stór hluti Íslendinga hefur kynnt sér. Á næstunni munu svo allir notendur Facebook þurfa að taka tímalínuna í notkun.

Æ fleiri fyrirtæki munu á árinu færa sér í nyt nýja möguleika þar sem ekki er bara boðið upp á að líka við vefsíður, heldur líka lesa bækur, spila leiki og elda eftir uppskrift svo fátt eitt sé nefnt.

Eigendur Facebook eru svo með endurfjármögnun á prjónunum og hyggjast setja fyrirtækið á opin hlutabréfamarkað, sem mun væntanlega eiga sér stað á fyrri hluta ársins. Athyglisvert verður að fylgjast með því, enda Facebook talið eitt verðmætasta fyrirtæki heims. Svo er bara að sjá hvort það reynist rétt.

Google í mínus
Google gæti komið með spjaldtölvu á árinu.
Það eru fáir sem átta sig á Google+, en örlög þessa nýja samfélagsvefs munu ráðast á árinu. Ljóst er að þrátt fyrir nýskráningar notenda í milljónatali heldur fólk sig enn á Facebook, þótt Twitter hafi sótt í sig veðrið að undanförnu. Google+ hefur verið að færast í áttina að því að fylgjendur sérfræðinga eins og ljósmyndarans Trey Ratcliff og upplýsingasérfræðingsins Olivers Reichtenstein hafa fylgt sér um þá. Sá fyrrnefndi hefur verið duglegur að halda óformlega netfundi í gegnum myndfundakerfi Google+ og hefur það laðað að aðdáendur hans. Athyglisvert verður að fylgjast með Google+ á næstu mánuðum.

Sá orðrómur hefur svo heyrst að snemma á þessu ári muni Google setja á markað spjaldtölvu sem keppir á sama markaði og Kindle Fire. Hún verði þá í svipuðum verðflokki, með tiltölulega lítið innra minni en treysta á tengingu við skýið, rétt eins og Fire gerir.

Rafbókavæðing fer hægt af stað
Nýjasta útgáfa Kindle-rafbókalesarans frá Amazon.
Útgáfa á íslenskum rafbókum mun styrkjast á árinu. Útbreiðslan verður þó minni en stóru útgáfufélögin vonast eftir. Það skýrist aðallega af höfundarréttarvörnum sem takmarka frelsi neytenda verulega en líka óhagstæðu verði í samanburði við hefðbundnar bækur. Það verða litlu útgáfufélögin sem eiga eftir að ryðja brautina hér á landi þar sem markaðurinn er lítill og þeir sem hafa miklu að tapa hafa mun meiru að tapa en litlu félögin.

Síðast en ekki sístÁ CES tæknisýningunni sem haldin verður í Las Vegas í Bandaríkjunum í næstu viku er búist við ýmsum tækninýjungum. Sagt er að Toshiba muni kynna þynnstu fartölvuna til þessa, þráðlaus hleðslubúnaður muni sækja í sig veðrið og símar sem keyra á nýjustu útgáfu Windows Phone verði áberandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×