Viðskipti erlent

Gott gengi hjá verslunum Kaupþings á Bretlandseyjum

Rekstur breskra tískuverslanakeðja í eigu þrotabús Kaupþings gekk mjög vel í jólaösinni í síðasta mánuði.

Fjallað er um málið í Financial Times. Þar segir að félagið Aurora Fashions hafi aukið söluna í desember s.l. um 13% miðað við sama mánuð árið 2010. Aurora rekur tískuverslanakeðjurnar Oasis, Warehouse og Coast en alls er um 765 verslanir að ræða á Bretlandseyjum. Fram kemur að hagnaður þeirra hafi aukist um 9% milli ára.

Árangur Aurora Fashions er athyglisverður því margar aðrar tískuverslanakeðjur í Bretlandi börðust í bökkum í desember og nokkrar þeirra hafa farið fram á greiðslustöðvun eða gjaldþrot. Má þar m.a. nefna Barratts Pricless Shoes og D2 Jeans og nærfataverslanakeðjuna La Senza.

Á síðasta uppgjörsári Aurora sem lauk í febrúar í fyrra, nam heildarsala félagsins 500 milljónum punda eða tæplega 100 milljörðum króna. Þar af komu 80 milljónir punda frá verslunum í öðrum löndum en Bretlandi. Á heimsvísu eru verslanir félagsins 1.246 talsins í 38 löndum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×