Viðskipti innlent

Tapa alltaf á fyrsta og fjórða í skjóli tekna sumarsins

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, segir að Icelandair tapi nær alltaf á fyrsta og fjórða ársfjórðungi, vetrarflugið sé þannig. Hins vegar borgi það sig að vera með öfluga starfsemi yfir veturinn því það skili sér margfalt yfir sumartímann.

Björgólfur segir að Icelandair sé vel í stakk búið að mæta samkeppni frá nýjum flugfélögum eins og Wow Air og Easy Jet, en Björgólfur var gestur okkar í nýjasta þættinum af Klinkinu.

„Það eru mörg félög að koma inn yfir sumarið. Það er tiltölulega auðvelt að reka flugfélag bara yfir sumarið. Við erum að berjast allt árið. Eins og þú sérð á okkar uppgjörum þá erum við að tapa á fyrsta og fjórða ársfjórðungi. Ergo, af hverju erum við að berjast í að vera með svona starfsemi yfir vetrartímann? Við horfum á það þarna að við séum að byggja upp til langs tíma. Við erum ekki hræddir við þessa samkeppni."

Icelandair flýgur nú til 23 áfangastaða í Evrópu og 8 í Bandaríkjunum og Kanada.

Þið lítið svo á að mikil starfsemi með mörgum áfangastöðum yfir veturinn skili sér í auknum tekjum yfir sumarið? „Alveg hárrétt. Það er lykillinn í þessu, en málið er að ef við horfum á aukninguna 2012 borið saman við 2011 þá erum við með meiri aukningu hjá okkur heldur en nemur heildaraukningunni. Við erum að vaxa, þrátt fyrir þessa auknu samkeppni og mikla vöxt sem talað er um í Keflavík, þá erum við að vaxa umfram heildarframboðið. Mér finnst það segja dálítið mikið," segir Björgólfur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×