Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Valur – Stjarnan 35-28

Kolbeinn Tumi Daðason í Vodafone-höllinni skrifar
Mynd/Vilhelm
Valskonur eru komnar í úrslit Eimskipsbikars kvenna í handbolta eftir öruggan sigur á Stjörnunni, 35-28. Valskonur höfðu töluverða yfirburði í leiknum og var sigurinn aldrei í hættu. Liðið mætir ÍBV í úrslitum þann 25. febrúar næstkomandi.

Stjörnustúlkur skoruðu fyrsta mark leiksins en eftir það tóku Valsstúlkur völdin. Þær jóku muninn jafnt og þétt allan fyrri hálfleikinn og leiddu með sex mörkum að honum loknum, 16-10.

Valskonur spiluðu grimma vörn sem Stjörnustúlkur áttu í miklum vandræðum með. Með vörninni kemur markvarslan en Jenný tók 13 bolta í fyrri hálfleik á meðan Kristín varði aðeins fjögur skot enda Valskonur að skjóta úr mun opnari færum.

Einnig munaði um minna þegar Jóna Margrét Ragnarsdóttir þurfti að yfirgefa völlinn seint í fyrri hálfleik þegar hún meiddist á hendi. Jóna hafði dregið vagninn í sókninni hjá Garðbæingum ásamt Rut Steinsen.

Garðbæingar minnkuðu muninn í fjögur mörk, 18-14, snemma í síðari hálfleik en komust aldrei nær heimakonum. Þær héldu öruggu forskoti sínu og tryggðu sér sjö marka sigur 35-28.

Góð samvinna varnar og markvörslu Valskvenna í fyrri hálfleik lagði grunninn að sigri heimakvenna. Stjörnustúlkur áttu í vandræðum með að skora og sex marka munur í hálfleik reyndist of stór biti að brúa.

Síðari hálfleikur var mun opnari en sá fyrri og lítið um góðan varnarleik. Valskonur héldu Garðbæingum þó alltaf í hæfilegri fjarlægð. Rut Steinsen dró vagninn í sókninni hjá Stjörnunni en miklu munaði um fjarveru Jónu Margrétar stóran hluta leiksins. Þá gekk Sólveig Lára Kjærnested ekki heil til skógar og meiddist auk þess um miðjan síðari hálfleikinn.

Valskonur því komnar í bikarúrslitaleikinn þriðja árið í röð þar sem mótherjarnir verða Eyjakonur. Valskonur freista þess að vinna bikarinn í fyrsta sinn síðan árið 2000. Leikurinn fer fram þann 25. febrúar.

Hrafnhildur Skúla: Erum orðnar mjög sólgnar í þennan bikar
Hrafnhildur Skúladóttir skoraði átta mörk gegn Stjörnunni í kvöld og tók undir með blaðamanni að sigurinn hefði aldrei verið í hættu.

„Þær voru svo sem óheppnar að missa Jónu (Margréti Ragnarsdóttur) út, hún er stór hluti af þessu liði. Við vitum að við erum með betra lið en megum samt ekki fara niður á hælana. Það gildir um mörg lið í þessari deild. En þetta gekk vel hjá okkur í dag," sagði Hrafnhildur sem sagði Valskonur orðnar vanar því að vera líklegri aðilinn fyrirfram í leikjum sínum.

„Við verðum auðvitað drullufúlar þegar við spilum illa og erum ekkert að nenna því. Við verðum að fá sem mest út úr leikunum og vera tilbúnar þegar erfiðu leikirnir koma. Stjarnan hefði alveg unnið okkur hefðum við verið á hælunum. Við vissum það alveg og mættum tilbúnar."

Valskonur mæta ÍBV í úrslitaleiknum þann 25. febrúar.

„Það verður eflaust mjög skemmtilegur leikur. Þær hafa styrkt sitt lið gríðarlega og eru með fjóra útlendinga sem eru mjög sprækir og sprækar íslenskar stelpur með. Þær eru með hörkulið og verður pottþétt hörkuleikur," sagði Hrafnhildur en það er orðið langt síðan Valskonur unnu bikarinn.

„Það eru tólf ár síðan þannig að þessa bikars hefur verið saknað lengi. Ég ætla aldrei að lofa neinu en ég alveg sagt þér það að við erum orðnar mjög sólgnar í þennan bikar svo við munum pottþétt gera okkar besta."

Rut Steinsen: Fáum alltaf mark í andlitið
„Þetta er svekkjandi. Ótrúlega léleg vörn í seinni hálfleik varð okkur að falli. Loksins þegar við vorum farnar að skora mörk fáum við alltaf mark í andlitið í hverri einustu sókn," sagði Rut Steinsen sem var atkvæðamest í sóknarleik gestanna. Hún sagði andann í klefanum í leikslok afar þungan.

„Í fyrri hálfleik vorum við að klikka á dauðafærum en svo gekk betur að skora í þeim seinni. En við fengum alltaf mark í bakið. Þetta fellur á því," sagði Rut.

Rut segir hóp Valskvenna breiðan með góðan mann í hverri stöðu og frábæra markverði.

„Ef við ætlum að vinna þær þurfa allar að eiga sinn besta dag. Við missum auðvitað Jónu (Margréti Ragnarsdóttur) snemma af velli í fyrri hálfleik og Solla (Sólveig Lára Kjærnested) er búin að vera með flensuna þ.a. við áttum ekki allar okkar besta dag. Því fór sem fór. Þær voru einfaldlega betri," sagði Rut.

Stjarnan mætir HK í N1-deildinni á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×