Það er búið að gefa það út hvaða tíu leikmenn munu byrja Stjörnuleik NBA-deildarinnar í ár en leikurinn fer fram í Orlando 26. febrúar næstkomandi. Los Angeles borg á fjóra af fimm byrjunarliðsmönnum Vesturdeildarinnar og er það í fyrsta sinn í fimmtán ár sem tvö liðsfélagapör eru í sama byrjunarliði í Stjörnuleik.
Los Angeles Clipppers mennirnir Chris Paul og Blake Griffin voru báðir kosnir í byrjunarlið Vesturdeildarinnar ásamt Los Angeles Lakers mönnunum Kobe Bryant og Andrew Bynum. Fimmti leikmaður byrjunarliðsins og sá eini utan LA er síðan Kevin Durant hjá Oklahoma City Thunder.
Dwight Howard, miðherji Orlando, fékk flest atkvæði allra leikmanna eða 1,6 milljón. Auk hans er í byrjunarliði Austurdeildarinnar LeBron James og Dwyane Wade frá Miami Heat, Derrick Rose frá Chicago Bulls og Carmelo Anthony frá New York Knicks.
Þetta er í fyrsta sinn síðan 1997 þar sem tvö liðsfélagapör eru í sama byrjunarliði í Stjörnuleik eða frá því að Hakeem Olajuwon og Charles Barkley frá Houston Rockets og Gary Payton og Shawn Kemp frá Seattle voru saman í byrjunarliði Vesturdeildarinnar.
Kobe Bryant var valinn í fjórtánda sinn í Stjörnuleik NBA-deildarinnar og kemst þar með í flokk með þeim Shaquille O'Neal, Jerry West og Karl Malone. Kobe Bryant var í öðru sæti yfir flest atvæði en Derrick Rose kom síðan í þriðja sætinu.
Byrjunarliðin í Stjörnuleiknum 2012:Austudeildin
Bakvörður — Derrick Rose, Chicago Bulls
Bakvörður — Dwyane Wade, Miami Heat
Miðherji — Dwight Howard, Orlando Magic
Framherji — LeBron James, Miami Heat
Framherji — Carmelo Anthony, New York Knicks
Vesturdeildin
Bakvörður — Kobe Bryant, Los Angeles Lakers
Bakvörður — Chris Paul, Los Angeles Clippers
Miðherji — Andrew Bynum, Los Angeles Lakers
Framherji — Kevin Durant, Oklahoma City Thunder
Framherji — Blake Griffin, Los Angeles Clippers
Chelsea
Wolves